Að aga sig til að gera sem mest úr óákjósanlegum aðstæðum

Að aga sig til að gera sem mest úr óákjósanlegum aðstæðum

Er það ekki skrýtið hvað „svona rólegheit“ varpa ljósi á marga hluti? Ég hef núna nægan tíma til að taka til, þrífa, skipuleggja, teikna og vinna í Ömmu-Dúttu sem ég setti af stað í mars – frábær tímasetning! EN ég hef komist að því, að til þess að ég nýti klukkustundirnar af einhverju viti, þarf ég stundaskrá. Ég er bara eins og börnin – þarf greinilega aðhald. Annars reikar hugurinn á milli allra þeirra verkefna sem ég „gæti“ verið að vinna í – en er ekki að gera. Um leið og ég er búin að setja upp einhvers konar skipulag, stundatöflu eða dagskrá verður mér miklu meira úr verki. 

Undanfarið hef ég verið að tileinka mér aðferð varðandi fjármálin, já ég fæ alltaf einhverjar dellur :) Fyrir ekki löngu síðan var Marie Kondo uppáhaldið mitt og ennþá, eftir heilt ár, er fataskápurinn eins og stílisti hafi lagað hann til fyrir myndatöku :) svo það virkaði.
Maður þarf ekki að verða heilaþveginn þó maður tileinki sér einhverjar aðferðir – eða jafnvel hluta af aðferðum. Taka það sem hentar og sleppa hinu.

Já, það sem ég ætlaði að segja … Þessi aðferð varðandi heimilisbókhaldið finnst mér frábær og aprílmánuður verður annar heili mánuðurinn þar sem ég nota hana. Það sem er skemmtilegast er þetta:

1. Maður handskrifar alla hluti og þ.a.l. er þetta smá hugleiðsla – þú rumpar ekki hlutunum af, þú gerir þetta fallegt. Efnið frá henni er mjög litríkt og maður notar mikið af áherslupennum – sem gerir þetta líflegt.
2. Þegar maður fær útborgað (eða reikn. borgaðan) gerir maður áætlun fyrir þá upphæð (í hvað á að nota peningana?)
3. Ef maður gerir þetta rétt veit maður nákvæmlega í hvað hver EINASTA króna fór og hvaðan hún kom. 
4. Maður gerir áætlun fyrir næsta mánuð – eða fleiri en einn. Að vísu ansi erfitt núna í augnablikinu vegna þessa ástands en ekkert varir að eilífu.
5. Maður notar ekki kreditkort (nema fyrir færslur sem koma sjálfkrafa).
6. Maður notar ekki debetkort (nema fyrir reikninga sem koma í heimabankann).
7. Maður notar bara peninga fyrir daglega eyðslu.
8. Þetta er auðvitað ætlað fyrir bandarískt umhverfi en þetta virkar fyrir alla aðra líka.

Þessi kona er með vefsíðuna www.thebudgetmom.com og hún er mjög virk á öllum vígstöðvum (Instagram, Youtube o.s.fr.v). Sumt er dálítið hmm … væmið og dramatískt EN það sem máli skiptir er það sem hún kennir varðandi heimilisbókhaldið. Mæli með því að kíkja á efnið hennar. Óþarfi að fara að kaupa af henni strax – fullt af ókeypis hlutum sem hægt er að byrja á og skoða, það þarf bara að skrá sig á email-listann. Kannski er ég ofur-skipulögð (á milli þess sem ég dett í óskipulag). Núna er ég t.d. búin að græja lista yfir hvað er í frystiskápum og -skúffum, annan yfir hvaða þurr- og bökunarvörur eru til  o.s.frv. :D

Jahá, þetta varð nú dálítið langt í þetta sinnið. En hafa ekki allar nægan tíma til að lesa núna? :)

Kærar spritt- og þvottakveðjur, Amma Dútta
Agusta Thordardottir

Leave a comment

Please note: comments must be approved before they are published.